Tíminn flýgur á fjarlægum hnetti
30. apríl 2014

Allt í alheiminum er á stöðugri hreyfingu. Fyrir skömmu sagði Space Scoop frá því að á þessu augnabliki ert þú á fleygiferð um geiminn á mörg hundruð þúsund kílómetra hraða á klukkustund! Jörðin er á hreyfingu, sólkerfið líka og meira að segja Vetrarbrautin.

Við notum hreyfingu Jarðar í geimnum til að skilgreina tímann. Við köllum þann tíma sem það tekur Jörðina að snúast einn hring um sjálfa sig „dag“ eða „sólarhring“. Ár er sá tími sem það tekur Jörðina að ganga einn hring um sólina.

Aðrar reikistjörnur eru mislengi að snúast í kringum sjálfar sig og sólina. Til dæmis er Merkúríus 87 jarðardaga að fara einn hring um sólina (eða eitt Merkúríusarár). Það þýðir að Merkúríus fer rúmlega fjórum sinnum í kringum sólina á sama tíma og Jörðin fer einn hring. Svo ef þú ert tíu ára á Jörðinni, værir þú 40 ára á Merkúríusi!

Sólarhringurinn er líka mismunandi á öðrum reikistjörnum. Til dæmis er sólarhringurinn á Júpíter aðeins 10 klukkustundir. Nú hafa stjörnufræðingar líka mælt lengd sólarhringsins á reikistjörnu fyrir utan sólkerfið okkar (fjarreikistjörnu)!

Beta Pictoris b er reikistjarna á braut um fjarlæga stjörnu. Reikistjarnan er 16 sinnum stærri en Jörðin en samt er sólarhringurinn þar aðeins 8 klukkustundir! Þetta þýðir að reikistjarnan snýst um sjálfa sig á næstum 100.000 km hraða á klukkustund!

Fróðleg staðreynd

Beta Pictoris b snýst miklu hraðar en nokkur reikistjarna í sólkerfinu okkar. Til samanburðar snýst Júpíter um sjálfan sig á um 47.000 km hraða á klukkustund en Jörðin á aðeins 1700 km hraða á klukkustund.

This Space Scoop is based on a Press Release from ESO .
ESO
Mynd
Prentvæn útgáfa

Enn forvitin(n)? Lærðu meira...

Hvað er Space Scoop?

Lærðu meira um stjörnufræði

Veitir næstu kynslóð geimkönnuða innblástur

Vinir Space Scoop

Hafðu samband